Stjórn Hringsins sammála barnalæknum

Í framhaldi af ályktun Félags Íslenskra barnalækna þar sem fyrirætlunum um að taka eina hæð Barnaspítala Hringsins undir fæðingarstofur Kvennadeildar er mótmælt vill stjórn Hringsins koma eftirfarandi á framfæri: Stjórn Hringsins er alfarið á móti þeim hugmyndum sem fram hafa komið um breytingar á Barnaspítala Hringsins þar sem ráðgert er að taka eina hæð spítalans undir fæðingarstofur. Á Barnaspítalanum er þjónusta við veik börn undir einu þaki og tillit tekið til sérstakra þarfa þeirra, meðal annars hvað varðar leik og nám.

Hringskonur stofnuðu Barnaspítalasjóð Hringsins árið 1942 til að styðja við byggingu barnaspítala á Íslandi. Draumurinn rættist í ársbyrjun 2003 þegar Barnaspítali Hringsins var formlega opnaður. Barnaspítalinn er hjartans mál Hringsins og félagið hefur styrkt Barnaspítalann um mörg hundruð milljónir undanfarna áratugi. Stjórn Hringsins telur ekki koma til greina að leysa húsnæðisvanda Landspítalans með þeim hætti að raska starfsemi Barnaspítalans.

Rétt er að taka fram að stjórn Hringsins var látin vita af þessum hugmyndum fyrr á þessu ári og telur sig hafa loforð fyrir því að ekki verði ráðist í slíkar breytingar án samráðs og með samþykki Hringsins.